Rétt eins og heimsóknir til dýralæknis ættu að vera reglulegar ætti eftirlit og tannhreinsun að vera hluti af venjubundinni umönnun gæludýranna okkar. Öll gæludýr þurfa reglulegt eftirlit með tönnum sínum þó sumar tegundir oftar en aðrar. Fjöldi tanna er mismunandi eftir dýrategundum, sjúkdómar í tönnum og tannholi eru algengar og sérhæfðir dýratannlæknar á Íslandi eru fáir.
Á Gæludýraklíníkinni finnur þú Hrund Ýr sem er einn af reyndustu dýralæknum landsins með tannlækningar sem sérsvið og eina best útbúnu tannaðgerðastofu landsins fyrir gæludýr. Hrund Ýr hefur sótt mörg námskeið á sviði tannlækninga smádýra m.a. í Luxemborg og Halmstad í Svíþjóð.

Tennur og tannhold gæludýra ættu að vera skoðaðar að minnsta kosti einu sinni á ári af dýralækni til að athuga hvort það séu merki um vandamál og til að halda munni gæludýrsins heilbrigðum. Ástand tannholdsins og beinanna sem halda tönnunum á sínum stað þarf að meta reglulega. Án meðhöndlunar geta slíkir sjúkdómar skaðað innri líffæri gæludýrsins, ekki bara munninn.

Algengustu tannsjúkdómar dýra eru:

Tannsteinn, er brún skán sem myndast á tennur og jafnvel tannbein dýra. Tannsteinn hleðst utan á glerung tannanna og getur valdið miklum óþægindum. Sum dýr fá oft og mikinn tannstein meðan önnur fá það aldrei. Best er að hreinsa tannstein af tennum reglulega, eigendur geta haldið tannsteini niðri með því að nudda hann jafnóðum og hans verður vart með þar til gerðum dýratannburstum eða grófri grisju. Til að hreinsa tannstein á stofu þarf að svæfa dýrið.

Kettir fá oft tannstein og tannátu. Með aldrinum aukast líkur á tannátu í köttum, en þá eyðist tönnin vegna innri og ytri þátta og myndast hola í tönnina. Kettir með mikið af bakteríum í munni vegna tannholdsbólgu eða mikils tannsteins eru líklegri til að fá tannátu og þess vegna er mikilvægt að halda tönnunum hreinum og láta dýralækni skoða tennurnar reglulega.
Sumar hundategundir eru líklegri en aðrar til að fá tannstein og tannholdsbólgur sem geta valdið beineyðingu í kringum ræturnar og tannlosi. Ef ekkert er að gert getur hundurinn fengið mjög slæmar sýkingar og misst allar tennurnar.

Tannholdssjúkdómur er sýking og bólga í tannholdinu, tannholdið eru vefirnir sem umlykja og styðja tennurnar. Slíkir sjúkdómar eru oft afleiðing tannsteins og baktería sem hann myndar. Tannholdsbólgur er algengar hjá hundum og köttum.

Glerungsskemmdir eru algengar og tennur í dýrum geta skemmst með tímanum vegna mikillar notkunar. Þá geta tennur líka brotnað af álagi eða af slysförum.

Tannslys, brotnar tennur
Tennur hunda þarf að skoða reglulega. Ef þeir brjóta hvolpatennur áður en þær eiga að losna geta fullorðinstennur skemmst. Það þarf að fylgjast vel með að fullorðinstennurnar komi rétt upp því sumar skakkar tennur geta meitt hundinn og þarf þá að rétta þær, stytta eða fjarlægja. Einnig þarf að telja hvort allar 42 fullorðinstennurnar hafi komið upp og ef ekki þarf að taka röntgenmyndir til að vita hvort þær séu til staðar undir yfirborðinu. Hundar brjóta oft tennur við að naga eitthvað hart, í leik eða slysum.

Í flestum slíkum tilfellum þarf að rótfylla eða fjarlægja brotnu tönnina.

Nagdýr eru svolítið sér á báti þegar kemur að tönnum. Tennur nagdýra eru nefnilega ólíkar tönnum rándýra en þær vaxa stöðugt. Gott og rétt fæði er grundvallaratriði fyrir tannviðhald og heilsu nagdýra. Stöðugt vaxandi tennur þurfa stöðuga notkun og eðlilegt slit til að dýrið haldi heilsu og verði langlíft.

Besta leiðin til að halda tönnum nagdýra í eðlilegri lengd er að útvega þeim eitthvað til að tyggja á. Mikilvægasta fæða þeirra er fremur gróft hey og gras. Annað til að naga: öruggur viður, sérstakir kögglar og leikföng sem gera þeim kleift að naga mun á náttúrulegan hátt stytta tennur niður í örugga lengd.

Fullorðin kanína er til dæmis með 28 tennur sem hætta aldrei að vaxa og þær geta vaxið allt að 1 cm á mánuði. Tennurnar slitna þegar kanínan étur grófa trefjaríka fæðu. Án slíkrar fæðu vaxa tennurnar of mikið og mynda brodda og tannskekkju sem veldur því að kanínan hættir að geta étið. Tennurnar eru kanínum mjög mikilvægar þær nota þær ekki bara til að éta heldur einnig til að tjá pirring, ánægju og sársauka, breyta og umraða í umhverfinu sínu, snyrta sig og félaga sína, rannsaka nýtt umhverfi og merkja sér svæði. Tannheilsa kanína er því afar mikilvæg.

 

Tannhreinsun er dýrum því mikilvæg og hjálpar til við að koma í veg fyrir frekari sjúkdóma í tönnum og tannholdi.