Hér eru 5 ráð fyrir heilsuhraustari eldri hunda.
Eins og sum ykkar muna kannski eftir buðum við á Gæludýraklíníkinni upp á fría heilbrigðisskoðun fyrir öldunga, óháð dýrategund, þann 17.des 2021. Þessir hópur gæludýra er okkur hugleikinn og við viljum gera ævikvöld þeirra sem allra best.

Þegar dýrin okkar fara að eldast er líklegt að við verðum vör við ýmsar breytingar í fari þeirra, bæði líkamlegar og andlegar.
Mikilvægt er að hafa augun opin fyrir þeim einkennum sem rekja má til aldurs eða hrörnunar. Því eitt er víst dýrin munu ekki standa upp einn daginn og segja okkur það beint út. Oft sjáum við það ekki á þeim fyrr en þau eru langt gengin í aldurstengdum óþægindum eða kvillum. Eldri dýr þurfa reglulegt heilbrigðiseftirlit og þau slíta líkama sínum mishratt eftir álagi og lífsstíl. En hvað eru helstu ellimerki hjá dýrum? Sýna öll dýr aldur sinn út á við? Og hvenær telst dýrið þitt gamalt?

Hundar og kettir eldast mishratt og því er ekki hægt að segja að við ákveðinn aldur eigi að telja þá gamlingja (svoldið eins og með okkur mannfólkið), en hundar eldri en ca. 8-12 ára eru oftast flokkaðir sem gamlir hundar og kettir eftir 11 ára aldur.

Vegna þess ákváðum við í lok árs 2021 að hafa það sem hluta af jóladagatalinu okkar að heiðra öldunga og bjóðum upp á fría heilbrigðisskoðun fyrir þá. Markmið okkar var að veita gæludýraeigendum eldri dýra ráðleggingar varðandi hreyfingu, fóðurval og fæðubótarefni fyrir þeirra öldung. Mikilvægt er að koma með gæludýrin reglulega í heilsufarsskoðun hjá dýralækni. Með því getur þú tryggt að gæludýrið haldi heilbriði sínu og að vandamál eða sjúkdómar séu greindir sem fyrst. Heilsufarsskoðanir eru því forvarnamiðaðar og með markmið þeirra er að veita eiganda innsýn inní heilsufar gæludýrsins.

Í dag með þessari stuttu grein einblínum við á hunda og gefum eigendum skotheld 5 ráð fyrir heilsuhraustari eldri hunda.

1. Fóður

Veldu rétt magn og fóður fyrir hundinn þinn – sérstaklega mikilvægt þegar hann er farinn að eldast. Við mælum með að velja fóður sem er sérstaklega þróað fyrir eldri hunda, oft kallað senior fóður. Slíkt fóður inniheldur öll þau bætiefni og næringu sem ráðlögð eru fyrir eldri hunda oft með áherslu á liði, augu og þyngd.
Það er líklega meira freistandi en áður að byrja að dekra við gæludýrið þitt á gamals aldri, en það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að mataræði þeirra sé hollt og í jafnvægi. Of margar hitaeiningar á þessu stigi gæti leitt til bólgu og þyngdaraukningar, sem hvort tveggja getur dregið úr lífsgæðum hundsins þíns.

2. Hreyfing

Mikilvægt er að halda hundinum þínum í góðu líkamlegu formi. Góður vöðvamassi getur bætt fyrir og haldið uppi slitnu stoðkerfi og viðhaldið eðlilegri brennslu. Enda eru vöðvarnir aðal drifkraftur efnaskipta og oft sést hrörnun hraðar þegar hundar missa vöðvamassann. Þegar virkni hunda minnkar með tímanum getur það verið merki um að eitthvað sé að. Eigendur gamalla hunda ættu því að fylgjast með lúmskum einkennum sársauka eða vanlíðunar. Að halda hundinum þínum á reglulegri hreyfingu mun einnig koma í veg fyrir þyngdaraukningu og eykur blóðflæði í liðina. Að viðhalda kjörþyngd er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert til að draga úr áhrifum t.d. liðagigtar. Haldið reglulegum styrkjandi æfingum áfram en dragið úr álagi s.s. hoppum og snöggum beygjum. Styrk, liðleika og almennri heilsu er best viðhaldið með hreyfingu og réttri fóðrun.

3. Reglulegar heimsóknir til dýralæknis

Partur af umönnun eldri hunda eru tíðari dýralækna heimsóknir. Gera má ráð fyrir að með aldrinum verði ónæmiskerfi hunda veikara, sem getur gert hann viðkvæmari fyrir alls kyns kvillum. Þess vegna mæla flestir dýralæknar međ því að eldri hundar fari í reglulega skoðun, helst á ca. sex mánaða fresti. Fylgjast þarf með þyngd, augum, ónæmiskerfi, hjarta, nýrum, stoðkerfi ofl. Ýmsir kvillar fara að koma fram í húð s.s. fituæxli. Reglulegt eftirlit hjá dýralækni eykur líkur á að kvillar greinist snemma og hægt sé að meðhöndla þá sem fyrst.

4. Fylgist með breytingum

Breytingar verða á hundum með aldrinum, líkt og okkur mannfólkinu, en þeirra breytingar eru lúmskari en okkar. Mikilvægt er að fylgjast með hegðun til að sjá breytta líðan og meta hvort og hvað þú getur gert til að hlúa að hundinum. Vert er að fylgjast með: stífari liðum, tannsjúkdómum, verri sjón og heyrn, minnkandi nætursjón, lystarleysi, þróttleysi, minnkandi úthaldi og breytingar á feld. Stundum er heimsókn til dýralæknis til að meta líkamsástand. Oft þarf að hagræða eða breyta í umhverfi þeirra til að auka lífsgæði, þeir geta þurft mýkri bæli, meiri hita, minna príl, stamara undirlag svo fátt eitt sé nefnt.

5. Hugarleikfimi

Hormónastarfsemi breytist með aldrinum, hreyfing verður minni og svefn eykst. Hundar virka því oft skapþyngri og alvarlegri með aldrinum. Hundar þarfnast hreyfingar en ekki síst þarfnast þeir verkefna eða hugarleikfimi. Þessi leikfimi bæði þreytir þá og gefur þeim góða útrás. Eldri hundar þurfa að reyna á hugann reglulega; verkefni og leikir sem þjálfa útsjónarsemi og viðhalda þefskyni og örva heilastarfsemi. Þrautaleikföng, þefmottur, sleikimottur, feluleikir og fleiri leikir sem eigandi getur verið hugmyndaríkur með og útfært eftir sínum hundi bæði viðhalda ungum huga og lífsgleðinni. Góð andleg útrás er jafn mikilvæg og líkamleg enda eykur hún flæði blóðs, súrefnis og næringarefna til heilans.

Þetta eru 5 ráð fyrir heilsuhraustari eldri hunda. Höldum gömlum hundum heilbrigðum með hreyfingu, pössum aukabitana og matarskammtana, fylgjumst vel með þeim, höldum í leikgleðina og skemmtilegheitin og munum að njóta gæðastunda í kúr og dekur með þeim daglega.

 

 

©2022 Gæludýraklíníkin
Gréta Jóhanna Ingólfsdóttir og Kristín Sigmarsdóttir