Sumarið er tíminn með blóm í haga og sól á himni og sól í sinni.

Við viljum benda kattareigendum sérstaklega á að ýmislegt þarf að hafa í huga varðandi ketti á vorin – og reyndar allt árið þegar kemur að heimilisplöntum. Kettir eru forvitnir og vilja leika sér að plöntum sem verður oft til þess að þeir smakka á þeim, þetta getur haft skelfilegar afleiðingar.

Hundar eru ekki eins viðkvæmir fyrir plöntum en þó mælum við alltaf með að hvolpaeigendur kynni sér mjög vel hvaða hættur leynist í þeirra heimili og nærumhverfi.

 

Eitruð blóm og plöntur:

Vekjum athygli á því að öll liljublóm (páskaliljur, friðarliljur o.s.frv) eru eitraðar köttum. Þ
Eitrun getur orðið hvort sem köttur nartar í blöðin, blómin eða frjóin.
Einkenni eitrunar eru meðal annars uppköst og slappleiki.
Mikilvægt er að hafa strax samband við dýralækni ef grunur leikur á að köttur hafi komist í liljur!

Upplýsingar um algeng og vinsæl pottablóm sem eru eitruð köttum má sjá hér – athugið að listinn er ekki tæmandi.

 

 • Drekatré (Dracaena Marginata og Deremensis)
 • Gúmmítré (Ficus elastica)
 • Fíkus (Ficus benjamina)
 • Hortensía (Hydrangea macrophylla) Allir hlutar eru eitraðir fyrir ketti. Einkenni eftir inntöku eru: niðurgangur, uppköst, kviðverkir, almenn vanlíðan og skortur á samhæfingu.
 • Lukkubaun (Castanospermum australe)
 • Aspas (Asparagus densiflorus sprengeri)
 • Monstera (Monstera Deliciosa)
 • Friðarlilja (Spathiphyllum wallisii) – Mjög eitruð!
 • Nería (Nerium oleander) – Mjög eitruð!
 • Vinka (Vinca rosea eða Catharanthus roseus).
 • Jólastjarna, Euphorbia pulcherrima. Mjög eitruð fyrir ketti! Bein snerting veldur húðbólgu með ertingu og jafnvel blöðrumyndun.
  Ef étið veldur það uppköstum, niðurgangi, kviðverkjum og mikilli munnvatnsframleiðslu.
 • Klifurjurtin Epipremnum aureum. Kettir sækja mikið í þessa plöntu. Ef étin getur hún valdið mjög tíðum uppköstum.
 • Gullregn (fræbaunirnar)

Jafnframt bendum við á að eftirfarandi plöntur eru eitraðar:

 • Köllubróðir (Dieffenbachia maculata)
 • Rifblaðka (Monstera deliciosa)
 • Kærleikstré (Philodendron-tegundum)
 • Þyrnikóróna Krists (Euphorbia splendens)
 • Venusarvagn
 • Bláhjálmar

Ef grunur leikur á að dýr hafi smakkað eitthvað eða innbyrt eitraða hluti þá skal alltaf leita aðstoðar dýralæknis sem allra fyrst!

Því miður er það staðreynd að ef dýr, sem hefur orðið fyrir eitrun, er ekki fært undir læknishendur í viðeigandi meðferð sem fyrst eru batalíkur ekki miklar.

Þá er ungviðið líklegast til að prófa sig áfram og því mikilvægt fyrir eigendur að kynna sér helstu hættur í nærumhverfi sínu.

Fuglar og hreiðurgerð

Nú eru allir villtir fuglar á fullu í hreiðurgerð. Við kattaeigendur þurfum að hlúa að náttúrunni og passa upp á kettina okkar á þessum viðkvæma vortíma.
Hjá okkur færðu trúðskraga á köttinn þinn og hálsólar með bjöllu og stakar bjöllur til að hengja á ól kattarins.
Við tökum ekki veiðieðlið úr köttum en við getum gert þeim erfiðara um vik að koma aftan að blessuðum smáfuglunum.
Mestu veiðiklærnar getur líka verið gott að halda inni yfir næturtímann.

 

Flær, mítlar og önnur sníkjudýr

En það er fleira sem vaknar á vorin, ekki eins krúttað og smáfuglar í makaleit. Flær og slíkur ófögnuður hefur aldeilis gert vart við sig undanfarnar 2 vikur eða svo.
Árangursríkast hefur verið að fá sníkjudýrameðferð hjá dýralækni, en settir eru dropar í hnakka og feld dýranna sem heldur óværunni frá.
Hjá okkur færðu flóaólar til að setja á bæði hunda og ketti til að minnka líkur á að ófögnuður sæki í þau.
Flóasjampó er líka til víða sem inniheldur m.a. Tea-Tree olíu sem fælingarlykt fyrir flærnar.

 

Njótum samvista við dýrin okkar í sátt og samlyndi við náttúruna í kringum okkur.
Gleðilegt sumar!
Gæludýraklíníkin