Hunda, ketti og kanínur þarf að bólusetja reglulega. Við höfum sett saman örstutta grein fyrir gæludýraeigendur til upplýsinga um nauðsynlegar bólusetningar og tilmælum um hversu oft ætti að bólusetja dýrin.

Við hvetjum alla til að halda vel upp á bólusetningarbækur dýranna sinna og muna eftir að koma með þær í heilbrigðisskoðanir.

Hundar

Hundar eru bólusettir fyrir smáveirusótt (canine parvovirus), lifrarbólgu (canine adenovirus I – hepatitis contagiosa canis), hundafári (paramyxovirus – canine distemper) og kennelhósta (canine parainfluenza). Hundafár hefur ekki greinst á Íslandi en hinar veirurnar eru landlægar.

Mælt er með að byrja grunnbólusetningu hvolpa um 8 vikna aldur (þegar þeir fara frá tíkinni) endurtaka svo 11-12 vikna (um það leyti eru mótefnin sem þeir fengu í móðurmjólkinni hætt að virka) og aftur 15-16 vikna þegar ónæmiskerfi þeirra er fullþroskað.

Bólusett er aftur ári seinna eða um 16 mánaða aldur og svo á tveggja ára fresti (miðað við núverandi bóluefni).

Við bólusetjum hvolpa 3x til að flýta því að eigendur geti byrjað umhverfisþjálfun, en eftir aðra bólusetningu (um 11-12 vikna aldur) er tímabært að hefja umhverfisþjálfun og útvíkka reynsluheim hvolpsins. Fram að bólusetningu #2 ráðleggjum við fólki að halda hvolpunum heima og frá öðrum hvolpum og hundun og hundasvæðum. Eftir bóluetningu #2 mega hvolparnir hins vegar byrja að kanna heiminn undir eftirliti og með stuðning frá eiganda sínum og þá fer einnig að vera tímabært að fara á hvolpanámskeið. 2-3 dögum eftir bólusetningu #3 telst hvolpurinn full bólusettur.

Mikilvægt er að tíkur sem notaðar eru til undaneldis séu bólusettar reglulega. Hvolparnir eru þá verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum sem þeir fá frá tíkinni, í gegnum móðurmjólkina. Athugið þó að þeir eru eingöngu verndaðir gegn þeim sjúkdómum sem tíkin er ónæm fyrir, því er mikilvægt að móðirin sé bólusett.

Samhliða bólusetningum er gott að ormahreinsa hunda, lestu um ormahreinsanir hunda hér.

Kettir

Kettir eru bólusettir fyrir kattafári (feline parvovirus – feline panleucopenia), kattaflensu (feline herpesvirus 1 – feline viral rhinotracheitis) og kattakvefi (feline calicivirus). Þessar veirur eru allar landlægar á Íslandi. Kattafár veldur blóðugum uppköstum og niðurgangi. Kattaflensa og kattakvef valda sýkingum í augum, efri hluta öndunarfæra og munnholi.

Kettlinga mælum við með að bólusetja um 12-16 vikna og endurtaka bólusetningu svo 3 – 4 vikum síðar. Þá telst kettlingurinn grunnbólusettur. Eftir það er bólusetningu viðhaldið árlega.
Kettlingum ætti að halda heima þar til þeir teljast fullbólusettir og halda frá samneyti við ókunna ketti.

Mikilvægt er að allir útikettir og læður sem notaðar eru til undaneldis séu bólusettar reglulega. Kettlingarnir eru þá verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum sem þeir fá frá læðunni, í gegnum móðurmjólkina. Athugið þó að þeir eru eingöngu verndaðir gegn þeim sjúkdómum sem læðan er ónæm fyrir, því er mikilvægt að móðirin sé bólusett.

Við mælum ekki með að kettlingafullar læður séu bólusettar.

Ketti þarf líka að ormahreinsa, lestu um ormahreinsun katta hér. 

Kanínur

Kanínur eru bólusettar fyrir smitandi lifrardrepi (calicivirus RHDV2 – rabbit haemorrhagic disease).

Mælt er með einni grunnbólusetningu eftir 5 vikna aldur og svo árlega.

 

 

 

Auk þess að bólusetja dýrin er mælt með amk. árlegri ormahreinsun og samkvæmt lögum eiga öll dýr að vera örmerkt.

 

(Grein skrifuð vor 2021 og uppfærð jan 2022)