Hundar, kettir, kanínur, naggrísir, degu og önnur nagdýr eiga það sameiginlegt að þurfa á reglulegu eftirliti með tannheilsu. Gæludýraeigendur geta sjálfir gert ýmislegt til að passa upp á tennur dýranna sinna. Hér verður fjallað um það helsta sem felst í tannumhirðu gæludýra.

Hundar, kettir og tannheilsa þeirra

Hundar og kettir fæðast tannlausir og fá hvolpa- og kettlingatennur á aldrinum 3-6 vikna. Fullorðinstennurnar koma svo á aldrinum 3-6 mánaða. Þegar hvolpar og kettlingar koma í fyrstu bólusetningar til dýralæknis eru tennur skoðaðar og kannað hvort bit sé eðlilegt og hvort einhverjar tennur hafi brotnað. Ef hvolpa- eða kettlingatennur brotna áður en þær eiga að losna komast bakteríur í gegnum rótina og geta valdið tannrótarbólgu og geta fullorðinstennur einnig skemmst. Það þarf að fylgjast vel með að fullorðinstennurnar komi rétt upp því sumar skakkar tennur geta meitt dýrið og þarf þá að rétta þær, stytta eða fjarlægja. Einnig þarf að telja hvort allar fullorðinstennurnar hafi komið upp og ef ekki þarf að taka röntgenmyndir til að vita hvort þær séu til staðar undir yfirborðinu. Hundar hafa 42 fullorðinstennur en kettir 30. Gott er að byrja snemma að kenna hvolpum að tannburstun er hluti af daglegri umhirðu.

Tannadgerdir

Hundar brjóta oft tennur við að naga eitthvað hart, í leik eða slysum og þarf þá oft að rótfylla eða fjarlægja tennurnar. Algengasta vandamál með tennur hunda er þó tannholdsbólgur og afleiðingar þeirra. Sumar hundategundir eru líklegri en aðrar til að fá tannstein og tannholdsbólgur sem geta valdið beineyðingu í kringum ræturnar og tannlosi. Ef ekkert er að gert getur hundurinn fengið mjög slæmar sýkingar og misst allar tennurnar. Hjá flestum hundum er hægt að koma í veg fyrir tannstein og tannholdsbólgur með því að bursta tennur, gefa tannhreinsandi fóður og bein og ef tannsteinn myndast að láta hreinsa tennurnar hjá dýralækni.

Kettir fá oft tannstein, tannholdsbólgur og tannátu. Með aldrinum aukast líkur á tannátu í köttum, en þá eyðist tönnin vegna innri og ytri þátta og myndast hola í tönnina. Kettir með mikið af bakteríum í munni vegna tannholdsbólgu eða mikils tannsteins eru líklegri til að fá tannátu og þess vegna er mikilvægt að halda tönnunum hreinum og láta dýralækni skoða tennurnar reglulega. Tannhreinsandi fóður virkar vel til að hreinsa tannstein hjá flestum köttum, en ef það dugar ekki eða tennur eru farnar að skemmast þarf að fá tíma fyrir köttinn í tannhreinsun. Ef vart verður við einhverjar skemmdir í tönnum katta er ráðlegt að taka röntgenmyndir af öllum tönnunum vegna þess að tannáta getur verið búin að éta upp stóran hluta tannrótar án þess að það sjáist utan á tönninni og þarf því röntgenmyndir til að meta hvort eigi að fjarlægja tennur.

Kettir geta fengið tannholdsbólgur vegna veirusýkinga sem valda öndunarfærasýkingum. Eru þar algengastar Herpes og Calici veirusýkingar, en þrátt fyrir almennar bólusetningar skjóta þessar sýkingar stundum upp kollinum og þá oftast í óbólusettum köttum. Köttum sem hafa jafnað sig á slíkum sýkingum er hættara við en öðrum að fá tannholdsbólgur og tannátu seinna á lífsleiðinni.

Kanínur,  nagdýr og tannheilsa

Allar tennur kanína, naggrísa og degu vaxa stöðugt alla ævi og framtennur músa og hamstra einnig. Gott og rétt fæði er grundvallaratriði fyrir tannviðhald og heilsu kanína og nagdýra með tennur sem vaxa alla ævi. Stöðugt vaxandi tennur þurfa stöðuga notkun og eðlilegt slit til að dýrið haldi heilsu og verði langlíft.

Til að ná þessu þurfa dýrin að éta mjög trefjaríkt fóður og nauðsynlegt er að gefa fæði sem líkist því sem villt dýr af þessum tegundum éta. Mikilvægasta fæða þeirra er fremur gróft hey og gras. 80-90% af fæði fullorðinnar kanínu á að vera hey eða gróft gras. Annað til að naga öruggur viður, sérstakir kögglar og leikföng sem gera þeim kleift að naga mun á náttúrulegan hátt stytta tennur niður í örugga lengd. Besta leiðin til að halda tönnum nagdýra í eðlilegri lengd er að útvega þeim eitthvað til að tyggja á.

Meðfædd bitskekkja er óalgeng í nagdýrum og kanínum. Dvergkanínur og kanínur með lafandi eyru eru með stutt trýni og er bitskekkja algengari í þeim en öðrum tegundum.

Tannlækningar og tannaðgerðir gæludýra

Rétt eins og heimsóknir til dýralæknis ættu að vera reglulegar ættu tannskoðanir að vera hluti af venjubundinni umönnun gæludýranna okkar. Öll gæludýr þurfa reglulegt eftirlit með tönnum sínum, þó sumar tegundir oftar en aðrar.

Mælt er með að bursta tennur hunda daglega og gefa köttum tannhreinsandi fóður eða nammi til að halda tönnum hreinum og tannholdi heilbrigðu. Tennur og tannhold gæludýra ætti að skoða að minnsta kosti einu sinni á ári af dýralækni til að athuga hvort séu merki um vandamál.

Tannhreinsun hjálpar til við að ná eða koma í veg fyrir sjúkdóma í tönnum og tannholdi. Ástand tannholdsins og beinanna sem halda tönnunum á sínum stað þarf að meta reglulega. Án meðhöndlunar geta tannholdsbólgur, beineyðing og tannáta valdið því að bakteríur komast í blóðrás dýrsins og skaðað innri líffæri gæludýrsins, ekki bara munninn.

Fjöldi tanna er mismunandi eftir dýrategundum og sérhæfðir dýratannlæknar á Íslandi eru fáir.

Á Gæludýraklíníkinni finnur þú einn reyndasta dýratannlækni landsins og eina best útbúnu tannaðgerðastofu landsins fyrir gæludýr. Á tannlækningadeild klíníkarinnar starfar Hrund Ýr sem hefur unnið nær eingöngu við tannlækningar gæludýra undanfarin ár og sótt mörg námskeið erlendis á sviði tannlækninga smádýra.