Hvað er ský á augasteini? (e. Cataract). Er dýrið þitt farið að fá gráma eða bláma yfir augað, eins og ský sé komið á ysta lag augans? Okkur langar að reyna að útskýra í stuttu máli hvað er að gerast, hvað er til ráða og hvernig er hægt að reyna að fyrirbyggja cataract.

Þetta er kallað á íslensku ský á augasteini en fræðiheitið er cataract og það er algengt að nota það í daglegu tali.

Einföld lýsing er að tærleiki augasteinsins minnkar og sjónin skerðist. En nákvæmari útlistun er að augasteinninn er mjúkur og hann breytir auðveldlega um lögun í yngri dýrum. Eftir því sem aldurinn færist yfir breytist augasteinninnn, hann harðnar og stækkar. Ský á augasteini getur þó komið fyrir á öllum aldri en er algengara í eldri dýrum og í raun talinn eðlilegur aldurstengd breyting.

Eigendur geta greint breytta hegðun hjá dýrinu sínu og eru þetta oft fyrstu einkenni cataracts.
Eitt eða fleira af eftirfarandi geta m.a. verið einkenni skýs á augsteini: hvítur/grár/blár litur virðist hafa sest yfir augað, versnandi sjón, verri nætursjón, aukin nærsýni ofl.  E
igendur geta þannig greint óöryggi hjá dýrinu sínu í myrkri (verri nætursjón), þeim bregður oftar þegar einhver labbar upp að þeim (sáu þá ekki koma), ganga á hluti, tapa fjarlægðarskyni.

Talið er að útfjólubláir geislar sólarinnar séu helsti orsakavaldur skýs á augasteini og sykursýki eykur áhættuna.

Ekkert meðferðarúrræði er til en þó er hægt að fjarlægja augasteininn og í fólki er algengt að skipta honum út. Aðgerðin er flókin og kostnaðarsöm. 

Hundar geta lifað með ský á auga/augum þó lífsgæði þeirra eru vissulega skert. Sjúkdómurinn ágerist venjulega hægt og því venjast hundarnir breyttu ástandi sínu. Ský á auga veldur oftast eingöngu skertri sjón en getur líka orsakað blindu. Ský á auga veldur dýrum ekki sársauka og því kveljast þeir ekki en bólgur í og við augað geta myndast samhliða skýi á auga og valdið óþægindum. Hundar með ský á auga sem ágerist hratt geta sýnt persónuleika röskun vegna vanlíðunar og því þeir eru illa áttaðir og ringlaðir (disorientation/ confusion).

Hvað geta eigendur gert til að fyrirbyggja eða seinka því að dýrið þeirra fái ský á augað?
Tekið skal fram að engar rannsóknir hafa skilað fullnægjandi niðurstöðum varðandi náttúrulegar forvarnir. Því eru engin lyf til við sjúkdómnum.

Þó hafa rannsóknir bent til að að C og E vítamín séu andoxunarefni sem hægi á þróun og framgangi augnskýja/ cataracts. 

A vítamín er nauðsynlegt fyrir öll dýr, sem þýðir að það verður að vera hluti af mataræði þeirra til að viðhalda sem bestri heilsu. A vítamín er líka andoxunarefni og styður við augnheilsu í dýrinu þínu og getur einnig viðhaldið nætursjón. A vítamín er fituleysanlegt og getur því safnast upp í líkama flestra dýra, A vítamín þarf því að gefa í réttu magni til að verða til gagns en ekki ógagns. 

Passa þarf magns fæðubótarefna og vítamína sem gæludýrum er gefið, ráðlagðir skammtar fyrir menn eiga aldrei við um dýrin. Flest dýrafóður er með viðbættum helstu vítamínum – svo leitaðu ráðlegginga hjá dýralækni hvað má gefa dýrinu þínu og í hvaða magni.

Viltu vita meira um Catarct? Fólk getur líka fengið ský á auga og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð

fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gefið út greinargóðan bækling um sjúkdóminn og meðferðir fyrir mannfólk, sjá bækling hér